Uppgjör við vindmyllur vonskunnar

Fortíð mín er óskrifað blað og framtíðin þegar rituð. Bíddu nú við, þetta er ekki alveg rökrétt. Ég hef lifað sem fangi fortíðar svo langt sem ég sé inn í hana. Ég hef mótað viðhorf dagsins í dag eftir því sem fólki finnst og verið fangi væntinga minna um viðurkenningu annarra.

1998-safn-039Svo vaknaði ég upp, og gerði upp fortíðina. Ég gerði litla sögu um atriði sem skiptu mig miklu, og um fólk sem ég lít ekki upp til. Ætlunin var að gera sögunni hátt undir höfði og fá viðurkenningu margra á henni, en svo brást mér kjarkur.

Það eru til leiðir til að koma sögu á framfæri á þann hátt að hún fái umfjöllun, og það hafði verið minn vilji. Vilji er flókið afl sem er knúið af fleiru en þrjósku. Ég sá fljótt að umfjöllun og viðurkenning var ekki það sem ég sóttist eftir. Ekki viðurkenning fólks sem les fyrirsagnir, fleytir kerlingar á yfirborði, og viðrar ódýrar skoðanir á Netinu.

Ég vil ekki þannig.

Minn vilji snýst um manneskjur en ekki yfirborðskenndar yfirlýsingar sem enginn stendur við. Hversu margir viðhafa yfirlýsingar í kaffistofum, enn stærri í drykkjusamsætum, og geta skrifað og skrafað miklar langlokur í vandlætingu, en bregðast í minnsta mótlæti? Það eru margar hetjur á kaffistofunni.

Hversu marga hefurðu hitt sem hafa réttar skoðanir eða siðferðiskennd sem stefnir í rétta átt, en bregðast í boðaföllunum, hvað þá í ólgusjó? Í minni sögu er drepið á slíkum, sem geta á einkafundum viðhaft stór orð þér að skapi og lýst vandlætingu á þeim sem rangt gjöra, en bakka við minnsta grun um að hinir sömu muni veita sér vont umtal. Við nefnum slíkt hugleysi, en ég hef ekki vilja til slíkra yfirlýsinga.

Ég vel innihald og festu.

Manstu textann úr TrainspottingChoose life? Ég bý sjálfur við þá festu að hafa staðið með því sem ég hef trú á. Ég starfaði sem forritari á vinnustað, sem er opinber stofnun, sem stjórnað var (og er líklega enn) af yfirborðsmennsku og án heiðurs. Sjálfur sá ég mér ekki sess að sitja þar lengi við sama borð.

Síðan hefur það setið í mér hvort berjast skuli við vindmyllur vonskunnar eða láta þar við sitja. Ég ákvað á endanum að skrá þetta niður og setja það í form. Formið er hér á vefnum, en því verður ekki gert hærra undir höfði. Ég vil ekki hafa meira meira með þessa fortíða gera. Þó sagan sé hér er hún ótengd, ólinkuð, og verður svo um sinn.

Í dag er ég maður – sá sami og ég hef ætíð verið – sem leita innihalds og verðleika í kringum mig og í lífinu öllu. Ég hef aldrei hikað við að leggja hart að mér til að gera það sem rétt er, og ótrúlegt sem það kann að virðast, þá var mín versta stund afleiðing af því. Um það verður rætt síðar, annarsstaðar.

Á mínu heimili býr nú sál sem enginn vildi taka við, og hafði flækst á milli fólks. Sundurtætt var sálin og niðurbrotinn andinn. Hún kom á mitt heimili fyrir tæpu ári, og það var erfitt: Því aðstæður mínar leyfðu það ekki.

Í dag er hún í jafnvægi, sátt við Guð sinn, menn og aðra hunda. Hún er falleg og blíð við aðra, þó stundum sýni hún það á skrýtinn máta en hún er enn að læra. Heimili mitt hefur vaxið við að taka við henni, og við öll sem þekkjum hana erum glöð. Glöð því bæði hefði illa fariðfyrir henni hefði hún ekki fengið skjól, og við sjálf hefðum misst af þeirri gjöf að hafa hana í hópnum.

Oft forðast fólk að gera rétt, því það er óþægilegt eða hentar illa stundarhagsmunum. Það þarf sterka trú, á eigin gildi og sjálfan sig, og jafnvel á Guð, til að trúa því að rétt sé að gera rétt, hverjum sem það hentar.

Núna hentar mér að fortíðin er sett á hillu og af henni lært. Ég stefni til framtíðar en vel ígrundaður í núinu mínu.

 

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.