Hið heilaga nú

Hið heilaga nú nýtur mikilla vinsælda síðustu ár. Margir kennarar eru útblásnir af fullyrðingum þess að maður þurfi að lifa í núinu eða tengjast núinu og þar fram eftir götunum. Margir trúa þessum þvættingi.

Ég trúði þessu líka hér áður – enda virkar þetta augljóst. Ef þú ert í núinu hefurðu varla áhyggjur af morgundeginum? Varla ertu að dragnast með fortíðina ef þú ert í núinu?

Það virðist því augljóst að áhyggjur af morgundeginum eða þyngsli fortíðar hljóti að hverfa ef maður nær inn í núið.

Að staðsetja sig í núinu er kennt með ýmsum hætti. Algengast er að læra hugleiðslu, svo eru samtals meðferðir, hópameðferðir, möntrur af ýmsu tagi. Listinn er lengri en hann skiptir litlu máli hér.

Ef þú notar tækni til að komast í núið þarftu að viðhalda því með áframhaldandi tækni. Ef eitthvað í tilfinningum þínum – eða innri veröld – er að dragnast með óuppgerð atvik úr fortíðinni þá ertu bara að bæla það með tækninni. Um leið og þú myndir sleppa tökum á téðri tækni hrykkirðu í sama farið aftur.

Allur kvíði gagnvart framtíðinni er sprottinn af óuppgerðum atvikum og tilfinningum fortíðar. Eina leiðin til að lækna slíkan kvíða er að gera upp fortíðina og endurlæra eða endurhanna sjálf sitt í leiðinni. Hér er átt við að áhrifavaldar persónuleika þíns, s.s. uppalendur og í raun allt sem þú hefur leyft að hafa áhrif á þig mun endurskoðast.

Í slíkri sjálfsvinnu munt þú velja á eigin forsendum hvernig persóna þú vilt vera og hefja endurmótun hennar. Þar með muntu endurhanna hvaða áhrifavöldum þú vilt hleypa að þér. Með slíkri vinnu, sem útheimtir tíma, kyrrð, og endurspeglun, nærðu tökum á hver þú ert og hver þú vilt vera.

Áður en þú veist af grípur þú núið og ert þar upp frá því. Vegna þess að fortíðin er uppgerð og þú dragnast ekki með hana, heldur er hún orðin hluti af drifkrafti þínum. Þar með hættirðu að bíða einhvers góðs í framtíðinni eða kvíða hugsanlegum áföllum hennar, því þú treystir á sjálf þitt til að ráða við hvað sem er. Þannig séð ertu farin(n) að lifa fyrir daginn í dag í deginum í dag.

 

 

This entry was posted in Ferli hins jákvæða vilja and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.