Fjölmiðla uppeldi

Heimurinn okkar – já okkar – er mjög hraðvirkur. Bréf sem eitt sinn var vikur á leiðinni – og tók enn fleiri vikur að rita svar við – og svo fleiri vikur í svarleið, fer nú rafrænt frá einum til annars á sekúndubroti.

Þó veröldin hafi breyst hefur mannlegt eðli haldið sér. Karlar í mið Evrópu fyrir tvö þúsund árum flökkuðu um skóga og fjalllendi í leit að veiðibráð. Aðrir á milli héraða í verslunarleið, og smám saman festust einstaklingar í mjúkan faðm hjá ýmsum þjóðflokkum. Rétt eins og nútímamenn var þá algengt að fjórðungur barna væri upp alinn af öðrum feðrum en faðernið áttu.

Rómverjar byggðu fyrsta heimsveldi vesturlanda. Þó ekki fyrsta heimsveldi sögunnar. Heimsveldið varði í fimmtán hundruð ár, og menning þess enn lengur. Það er þess virði að skoða söguna þegar við skoðum samtímann. Rómverjar vissu vel hvað til þurfti svo byggja mætti veldi til framtíðar. Þó keisarasaga þeirra sé hreinlega geggjuð, er saga ríkisins afar áhugaverð.

Þeir vissu að góðar samgöngur yrðu aðal undirstaða ríkisins og hið upprunalega borgríki – Rómaborg og svein Latína þar í kring– var mótað eftir hugmyndum sem byggðust á lýðræði. Alla tíð rómarsögunnar var reynt að viðhalda lýðræði í einhverri mynd en oft tókst brösuglega til. Lýðræði er þess eðlis að það þarf ætíð að berjast fyrir tilveru sinni, svo er enn í dag, þó ekki sé það alltaf augljóst.

Yfirbygging hinnar rómversku valdastéttar byggðist á góðri menntun. Reynt var að stuðla að menntun allra þeirra sem fæddust inn í valda- og kaupmannastéttir. Þá mótuðust  tvær aðal stéttir í borginni, yfirstétt og undirstétt. Yfirstéttin var sú sem átti tilkall til stofnana, embætta, verslunar og áhrifa. Undirstéttin voru þeir sem urðu venjulegir hermenn – en herskylda var tuttugu ár í rómverska hernum – og verkamenn, landbúnaðarfólk, þjónar og portkonur.

Herinn er hér nefndur því 70% efnahags rómverska ríkisins, rétt eins og hins Bandaríska, Rússneska og Kínverska, snérist um þróun hernaðartækni, og viðhald hersins.

Í þessu samfélagi var undirstéttin almennt réttminni en yfirstéttin. Þó var litið svo á – frá sjónarhóli lýðveldis – að báðar stéttirnar ættu skilyrðislausan þann rétt sem þeim var skilgreindur. Eitt áhugavert sjónarmið var að undirstéttin ætti síður að taka afstöðu til ríkis- og menningarmálefna því hún hefði ekki innsæi til þess, þó hún fengi menntun. Á síðmiðöldum, þegar Þýsk miðevrópumenning nýtti sér siðaskipti trúmála til að endurmóta  háskólaþróun, sem nú er ráðandi um alla heimsbyggðina, var svipað sjónarmið ráðandi.

Í hinni þýsku hugsun var gert ráð fyrir að níutíu og sex prósent fjöldans – alþýðan – þyrfti aðeins að kunna lestur, skrift og reikning. Að þrjú prósent fjöldans væru þeir sem þyrftu menntun til embætta og vísinda því skipulag ríkjanna og eðlilegir farvegir þjóðarinnar hvíldu á þeirra herðum. Síðasta prósentið væri yfirstétt – eða aðall – sem þyrfti aðeins kunnáttu í að stjórna hinum níutíu og níu prósentunum.

Nú kann þetta að virðast langstótt, en líttu á samtímann. Ábernadi meirihluti alþýðunnar er afstöðulaus mannfjöldi sem þrælar sér út án þess nokkru sinni að líta út fyrir borðstokk sinnar menningar eða þægindahrings. Hún er skoðana- og tilfinningadrifin, stjórnast meir af slagorðum og fyrirsögnum en innihaldi og er harðbannað að nefna lágmenningu í hennar eyru, enda er skoðun hvers fávita heilög.

Fáviti er bannorð en greindarskertur á gráu svæði. Svo merkilegt sem það er heldur öll alþýða manna að hún eigi réttindi, að hún beri engar skyldur, og að hver einstaklingur sé eitthvað merkilegur. Þó býr allur þorri hins vestræna heims í vernduðu gettói. Utan þess raungilda sannleika er þriðji heimurinn sem berst harðri lífsbaráttu. Þetta er einnig bannað að setja upp.

Meira máli skiptir hver stendur í skilnaði í Hollywood, hver skuldar hvað í hruninu, og málefni sem tröllriðu fjölmiðlum fyrir þrem mánuðum eru öllum geymd í skarkala hins rafræna nútíma, því á hverjum tíma er eitthvða nýtt sem tröllríður og fjöldinn hefur þar engin áhrif. Þó er honum talið trú um að hann búi við lýðræði, en lýðræði Rómverja – hinna útvöldu – er enn við líði.

Ýtt er á hvern mann – og konu – að hafa sem mest ofan af fyrir sjálfum sér og eyða öllum innri leiða með því að tengjast við nútímafjölmiðlun á eins háum styrk og hægt er. Hvergi má vera eyða og vei þeim sem hugsar út fyrir rammann. Þó eru til námskeið – eða fyrirlestrar – fyrir vinnandi fólk að hugsa út fyrir rammann í vinnunni, en um leið og þú gerir eins og fyrirlesturinn kennir verður gerandinn í stórhættu við að missa vinnuna. Því hin framúrstefnulega, vel upplýsta, siðmenning vesturlanda er skíthrædd við allar nýjungar, þó lifir hún á þeim.

Bera fjölmiðlar ábyrgð á því hvað skrílnum er kennt? Ber hinn vel menntaði skríll ábyrgð á því að nota þekkingu sína, að velja áhrifavalda fjölmiðlunar af ábyrgð? Ætti skríllinn að gera kröfur á fjölmiðla um gæði? Það myndu Rómverjar gera, sé skoðað hvernig þeir unnu.

Þeir myndu þó halda undirstéttinni utan við almenna umræðu og helst svæfa hana með skemmtunum eða slagorðakenndu orðagjálfri daglegra frétta og lágumræðu.

*

 

This entry was posted in Heimssýn. Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.