Veikur er verndaður maður

Ég skammast mín pínkupons fyrir það sem ég ætla að skrifa en hugsunin vaknaði og mér finnst hún eiga rétt à að vera skoðuð.

img-coll-0425Það ríkti hér áður sú hefð og að miklu leyti ríkir hún enn, að einkalíf fólks í sviðsljósinu var látið vera. Þetta fólk gat verslað óáreitt svo dæmi sé tekið og reynt var að sneiða hjá því að kasta skyri í persónur þó fólk væri ósammála.

Þetta hefur dálítið riðlast en mest þó í athugasemdaþráðum og hjá vissum fjölmiðlum sem virðast þrífast á að kasta skyri undan blævængjum.

Fólk à það til að gleyma sér og ég hef sjálfur oft þurft að bíta í pikkputtana þegar mér hefur þótt einhver eiga skammir skilið. Hef ég tekið eftir að ef fólk fær ábendingu um að það hafi farið á rauða strik dónaskapar sér það yfirleitt að sér.

Fyrir hefur komið að ég hef skorið á tengsl á samfélagsmiðlum ef mér hefur þótt dónaskapur ganga of langt, og geri hiklaust, jafnvel gagnvart skoðanasystkynum. Við verðum, að mínu mati, að standa vörð um dónaskap en einnig skoðanafrelsi. Sá línudans hefur aldrei verið auðveldur og má ekki vera það.

Fólk almennt vill láta gott af sér leiða en við skiljum hugtakið gott á misgóða vegu og þó það sè stundum erfitt að kyngja því þá er það nauðsynlegt fyrir fjölbreytileika blómahafsins að helvítis illgresið fái að syngja með.

Bíðum aðeins við. Elítuskrattinn veit að þjóðin lætur forystusauði vera ef þeir veikjast. Hér áður var varla minnst á veikindi slíkra.

Fjölmiðlar þögguðu þá í þann tíma sem þeir börðust við veikindi, fólk frétti frá manni til manns af veikindunum og sýndi sinn betri mann, því við látum ekki skyreðju þjóðmálanna fara út í hið persónulega, heldur óskum við góðs bata og berjumst í næstu lotu.

Síðasta áratug hefur mér fundist forystusauðir og froðumiðlar hafa nýtt sér þessa hugsun þjóðar okkar. Þetta finnst mér að sumu leyti. Ljótt að segja þetta en èg er með fáein dæmi í huga og mér finnst það vera þess virði að velta steininum við, hvort sem eitthvað er undir eða ekki.

Getur það verið að stundum eftir harðan slag þjóðmála séu veikindi diktuð upp þegar stormurinn hefur orðið visst mikill, eða hreinlega snúin upp fyrirfram? Hvað eru margir stjórnmálamenn búnir að smeygja sér tímabundið undan holskeflu umræðunnar með alvarlegum veikindum síðasta áratuginn?

Ég man nöfn á borð við Davíð, Ólöfu, Geir, Ingibjörgu, Hönnu. Mér er sama hvort þessi veikindi eru upplogin eða ekki. Fjölmiðlar og stjórnmálafólk lýgur að fólki til að halda því stjarfdáleiddu og það er engin umræða í gangi um slíkt.

Walter Lippmann skrifaði bók um svona hluti. Hún var gefin út árið 1922 og þú veist ekki hvað hún heitir. Noam Chomsky gaf út aðra bók um svona hluti fyrir þrem áratugum. Þegar Chomsky er spurður út í efni hennar þá vísar hann gjarnan í að bók Lippmann hafi komið sér á sporið. Þú veist ekki heldur hvað sú bók heitir.

Einnig hefur þú tekið ýmis próf úr ensku og þú hefur örugglega heyrt um markaðsfræði en veistu þá hver Edward Bernays var eða kannastu við setninguna „subliminal suggestion?“

Ertu viss um að skoðanir þínar séu þínar og geturðu skilgreint fyrir mér muninn á afstöðu og skoðun?

 

 

This entry was posted in Þjóðveldi and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.