Sjálfsblekking aðdáenda Sóknarhóps og Pírata

Sóknarhópurinn sem farið hefur eins og eldur í sinu á vefnum er blekking. Um er að ræða hjákátlega tilraun úr samskonar tjaldbúð og Samfylking og Björt framtíð til að koma á Stjórnlagaspunanum frá 2012.

img-coll-0185Ef þú sérð ekki að spuninn var blekking og tál þá heppnaðist honum að leiða þig í villu og þá er óþarfi að útskýra það nánar fyrir dáleiddu meginstraums fiðurfé.

Sóknarhópurinn er leiddur af góðum manni sem heldur því fram að hann sé skipstjóri og hann virðist starfa erlendis.

Líklegt er að hann hafi verið settur til hliðar af LÍÚHAFRÓ því annars stundaði hann sjóinn hér heima. Því held ég að hann sæki ekki fram vegna málefnis heldur reiði.

Einnig er áhugavert að hann hóf baráttuna úr erlendu skjóli sem bendir okkur á aðra blekkingu. Sá sem lifir í vellystingum erlendis og virðist eiga fyrir húsi þar og flugmiðum fram og til baka, er tæplega að berjast fyrir hag minnimáttar, heldur eigin áhugamáli.

Ennfremur er ljóst að þeir sem eiga fyrir vellystingum erlendis hafa meiri hug á eigin hag en hag almennings hér heima, sem aftur rekur stoðum undir að hann skjóti úr launsátri reiðinnar. Einnig er það Sálfræði 101 að auðvelt er að beina reiðu fólki í vissar áttir sé rétt hvíslað í eyru þeirra og því er eðlilegt að spyrja hver sé á bak við blessaðan manninn.

Eitt sem fer framhjá mörgum er að forsprakki hreyfingarinnar segist vera „Sjálfstæðismaður sem kjósi ekki sjálfstæðisflokkinn.“

Sú fullyrðing stenst ekki svosem næsti sjálfstæðismaður getur frætt þig á. Ég var sjálfur sjálfstæðismaður og skráður í þann magnaða flokk, en ég hef ekki mætt á fundi hjá flokknum síðan ég hóf baráttu fyrir Þjóðveldi.

Því þekki ég sjálfstæðismenn og þeirra hugsunarhátt og hann er svona; ég myndi aldrei kjósa neinn annan fjórflokk annan, frekar myndi ég sniðganga kosningar og það gera XD menn ekki. Ennfremur sérðu vel ef þú skoðar málefnaspuna síðustu ára að jafnvel ESB-sjálfstæðismenn fara í samtalsmeðferð hjá sálfræðingi við þá tilhugsun eina að snúa baki við flokk sínum í aðdraganda kosninga.

Nei, þetta er spuni og ég mun reka einn flein í sápufroðuna í viðbót.

Níu tíundu málefnisins er byggt á því að taka kvótann af LÍÚHAFRÓ klíkunni en það stenst ekki því engin aðferðafræði eða framgöngustefna er málinu til stuðnings. Einungis er bent á að taka þurfi upp allan spunann frá 2012 til þess eins að virkja auðlindaákvæðið.

Rétt eins og reynt var að selja þér 2012 froðuna á grundvelli tveggja ákvæða af 114; nefnilega að undirskriftalistar gætu krafist þjóðaratkvæðis um stök lög og hins vegar auðlindaákvæðið. Enginn las greinarnar sem var laumað inn til að skjóta okkur skáhallt inn í ESB og enginn las hvernig 2012 spuninn hefði minnkað vægi þitt sem borgari.

Þetta er ekkert annað en undirbúningur fyrir kosningarnar eftir tvö ár. Ódýrt tékk til að gá hversu auðvelt sé að spinna fólk upp vegna eins málefnis og skáskjóta öðru á bak við.

Sannaðu til; Sóknarhópurinn verður horfinn eftir átján mánuði og kjarninn kominn til a) Samfylkingar, b) Bjartar samtíðar eða b) Besta flokksins – því er einhver munur á þessum þrem?

Nú  vil ég árétta að ég held að foringi hópsins sé ágætis maður eins og flest annað Lýðveldisfólk. En þetta er samt spunablekking. Vissulega er stefnan út á við Kvótinn; en það er blekking til að laða fólk að – markmiðið er Jóhönnustjórnarskráin.

Aðal málið er samsæriskenningin en ekki hvar beddinn er eða næturgagnið. En maður veit ekki hvað gerist á morgun í hringekju fáránleikans. Margir leyfa sér á Netinu að kalla 2012 froðuna Stjórnarskrá fólksins, sem er einhver fáránlegasta sjálfsblekking sem til er.

Hvergi kom þjóðin að því að semja stjórnarskrár tillögurnar 2012, engin málefnaleg samfélags samræða eða fræðsla fór fram um tillögurnar eða eðli þeirra og tilgang.

Reiði fólks vegna hrunsins var virkjuð að mínu mati til að etja fram breytingum sem Frú Jóhanna vildi knýja fram og spunum, áróðri og valdþvingum var beitt til að ná markmiðunum fram. Þjóðinni var síðan seldur spuninn á áróðursbragði tveggja atriða – sem bæði eru aðalatriði Sóknarhópsins.

Varðandi Pírata og vaxandi fylgi þeirra í skoðanakönnunum þá er það enn fyndnari blekking sem í raun setur tilbúning þeirra rétt fyrir kosningar vorið 2013 sem fyrsta þátt í spennandi leiksýningu.

Píratar standa ekki fyrir nein málefni sem eru þjóðhagslega hagkvæm. Flokkurinn hefur ekki sýnt í neinni  umræðu neina getu til að standa uppi í hárinu á Elítunni, hvað þá skuggavaldinu, og hefur engin sérstök baráttumál uppivið sem þjóðin getur sameinast um.

Einungis er um að ræða virkjaða tilfinningaskoðun sem annars vegar skákar raunverulegum smáhópum með raunveruleg baráttumál og heldur þannig vaxandi hreyfingu óánægðra Íslendinga uppteknum, þeir hafa eitthvað til að smalast að, sem um leið er vita meinlaust og bitlaust. Nægir að skoða feril Píratadísarinnar í stjórnmálum til að rökstyðja stefnuleysi, egóisma og festuleysi.

Ég átta mig á að ég skauta á hálum ís með þessari færslu – sem var upphaflega skrifuð á Facebook í febrúar 2015 en færð yfir á þennan vef í maí sama ár – en spurningin er ekki hvort ég lesi rétt í líðandi stund eða spunana heldur að ég spyr hvað sé falið og reyni að finna svarið.

Ekkert er eins og þú heldur að það sé. Ríki er aðeins hugmynd. Þegar enginn trúir hugmyndinni hverfa öll ríki.

Réttindi eru sömuleiðis ekki til, því til að veita réttindi þarf fyrst að fjarlægja þau náttúrulegu, eða meðfæddu. Trúarbrögð eru nauðgun á hugsun og trú, því þó fólki sé eðlilegt að trúa á eitthvað sem ekki sést, þá er ekki sjálfsagt að hið trúaða eigi sér embættisfulltrúa.

Að lokum skal bent á að orðið Trú merkir ekki sannfæringu um tilvist einhvers yfirskilvitlegs, heldur hugmynd sem stjórnar hugsun. Sá sem skilur þessa fjóra máttarstólpa heljar er afdáleiddur og sér að allt er blekking og að hún er honum innrætt í gegnum hans eigin sjálfsblekkingar.

 

 

This entry was posted in Þjóðveldi and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.