Óþekktir vogunarsjóðir og löglegt ránsfé

Einu sinni voru örfá ríkisfyrirtæki sem stóðu vel. Svo voru þau gefin í gegnum leikfléttu sem uppkomst og nefndist einkavinavæðing. Þá fóru þau að leika sér með froðubólur þar til þau sprungu með hvelli. .

Þá voru þau orðin þrjú en með tífalda veltu ríkisins og þó þau hefðu farið á hausinn þá hefði það verið eðlilegt. Vissulega hefðu það verið stórt áfall fyrir eigendur þeirra en það hefði jafnað sig.

Viti menn; ríkið hljóp undir bagga með þrem einkafyrirtækjum sem (hugsanlega) tengdust valdhöfum bak við tjöldin. Var þeim rétt um það bil 500 þúsund milljónir – plús mínus nokkrar millur. Stundum nefnt milljarðar til að hljóma betur.

Svo liðu fáeinir mánuðir og stofnuð voru ný fyrirtæki með nýjar kennitölur (það heitir kennitöluflakk ef þú gerir það). Ítrekað var sagt í fréttum „við vitum ekki hvað fyrirtækin eiga en við vitum nákvæmlega hvað þú skuldar þeim.“

Þá var það sem þú skuldaðir þeim tvöfaldað til þrefaldað (það nefnist verðtrygging á hagfræðimáli en fjárkúgun á götumáli). Svo voru uppskrúfaðir stýrivextir og fléttaðir af gömlum vana við venjulega vexti og lagt ofan á fjárkúgunar formúluna og þú varðst að borga upp í topp.

Á sama tíma læddust inn fréttir af einvherju sem nefnist vogunarsjóðir, sem á ensku er nefnt „Hedgefund“ en enginn veit hvað er. Þessir feitu sjóðir eignast skyndilega kennitöluflökkuðu fyrirtækin sem þú borgaðir bæði í gegnum skatta og ofurvexti.

Taktu efir orðinu Eignuðust, því þeir fengu fyrirtækin gefins eða á eitt til fimm prósent af markaðsvirði fyrirtækjanna. Gleymdist eitthvað í þessari jöfnu?

Jú, þeir ríkisborgarar sem teljast til „almennings“ og hinir sem nefnast „fjölskyldurnar í landinu“ voru borin út á götu ef þeim varð misdægurt við að borga smávegis. Af hundrað þúsund heimilum landsins var um tuttu þúsund þeirra hirt. Sum þeirra eru núna gistirými fyrir skyrturúna túrista.

Þeir sem hirtu heimilin voru a) dómskerfi landsmanna og b) sýslumenn landsmanna, sem í orði kveðnu eru starfsmenn landsmanna. Meðan allt þetta gerðist bloggaði þjóðin og uppfærði stöðulínur á Feisbúkk.

Tilefni þessarar færslu er frétt á mbl.is þess efnis að nú sé að hylla í það að sjóðirnir sem enginn veit hverjir eru fái greitt ránsfeng stjórnkerfisins. Ránsfeng sem tekinn hefur verið eignarnámi því kerfið hugsar sem svo; þegar kerfishrun á sér stað skal slá skjaldborg um þá sem ollu því og láta þjóðina blæða.

Við lifum við fjórfalda hugarvillu. Sú fyrsta er sú að fulltrúalýðræðið var í upphafi hannað til að varðveita völd elítu konungs sem nú er elíta efnahagslífsins. Til að finna þá elítu þarf einungis að rekja peníngaslóðina. Sú næsta er að völd spilla og varðveita völd, rétt eins og öll framkoma hins opinbera – ráðuneyta og stofnana – sýnir mjög skýrt. Sú þriðja er að siðferði sé hafið yfir allan vafa, og þá meina ég að við almenningur höldum að valdafólk hafi sama siðferði og við.

Hin þriðja og alvarlegasta er sú að meðan við bara rífumst eða bloggum eða notum þau úrræði sem eru í boði þá tökum við þátt í bullinu. Ef það eina sem þú gerir eða heldur að þú getir gert sé að nota kosningarétt til að skipta um valdhafa þá áttu skilið það sem þú færð, sem er ný andlit með sama bullið.

Er einhver hér hissa á því að Þjóðveldið mun skrúbba þetta burt? Það eina sem stöðvar okkur er að þeir sem eru enn að blogga og stöðulínast eru enn í einhverjum dáleiðsludraumi þess að þetta muni allt saman reddast, svo fremi að draumar sínir séu ritaðir á blað.

Er einhver Íslendingur eftir í landinu innan um sápudáleiddar vomurnar? Er einhver sem skilur hvað borgaralegt sniðgengi og lýðræðissamræða er þegar það er notað af hugviti og hugrekki? Eða er dugur fólks orðinn að ofmenntuðu sífri?

 

 

 

This entry was posted in Þjóðveldi and tagged . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.