Kókdrukknuð menning á völtum fótum

Oft birta fjölmiðlar fréttir af hreyfingum útlendinga hérlendis. Þetta er tíska síðan þjóðin missti trúna á sjálfa sig. Skiptir engu hver útlendingurinn er ef hann er flottur í tauinu og lófarnir loðnir. Séu þeir óloðnir dugar að hann sé frægur í slúðurblöðum.

Kínverjar keyptu sér jörð á norðurlandi og fór það hljótt enda á þeim tíma hálft landið í kvíðakasti yfir hugsanlegri atvinnusköpun í afdal sem enginn fer um nema nokkrar skjátur og fáeinir fuglar.

Ljóst má vera að Kínverjar hafa mikinn áhuga á norð-austur hjara landsins og eru þegar búnir að setja fjárfestingar í olíuveiðar á Drekasvæði – sem aftur fer hljótt.

Nýverið var rifjað upp á RÚV þessi jörð sem enginn veit hvar er.  Í rauninni skiptir það engu máli. Svissneskur auðkýfingur á hér tugi jarða er mér sagt. Alls kyns efnað fólk frá Evrópu leitar hér smájarða til að eiga afdrep frá mengun Evrópu, rétt eins og slíkt var sópað upp af efnuðum Þjóðverjum hjá Írum árin 1995 til 2005.

Erlendir auðhringir meira og minna eiga vatnsaflið okkar í dag og verið er að hálfgefa gufuna. Hvalfjörðurinn sem er ein okkar flottasta perla verður brátt endurnefndur Chemofjord, hnípin og örvingluð þjóðin er ýmist borin út á götu eða þorir varla að opna á sér þverrifuna af ótta við vinnumissi og útburð. Ferðamenn eru rúnir inn að skinni í skiptum fyrir tveggja stjörnu þjónustu.

Þeir sem enn hafa heila brú í hausnum eru komnir á róandi eða ýfandi eftir atvikum, heilu skólabekkirnir á rítalíni og svefnlyf eru geymd hjá fjölvítamínínu. Mesta sælan er að fylgjast með innihaldslausum sápuóperum og þeir sem geta aðeins meira eru hálfdofnir í golfi öllum stundum og kalla það útivist.

Við höfum enga sýn, ekkert stolt. Menningargrunnur okkar er drukknaður í kókdós og dugnaður okkar er geymdur í alls kyns úrræðum.

Nýlega heyrði ég verktaka segja að það versta við hrunið var að missa pólverja úr landi, því eftir að þeir fóru kom hann engu í verk. Hvort Kínverjar, Álbarónar eða Bankabullur traðka á þjóðinni með hennar leyfi, er álíka og munurinn á að prumpa og að leysa vind.

Því meðan þjóðin hamast við að þræla sér út með hangandi hendi, að senda börnin sín í alls kyns greiningar og leita sjálf að alls kyns úrræðum sem hafa vit fyrir henni; þá fær hún nákvæmlega það sem hún biður um.

Hvað eru margir sem trúa eins og gáttaðar hænur á atkvæðið sitt á fjögurra ára fresti?  Hvað eru margir sem hrópa eða blogga „þeir lugu“ árið á eftir, eins og röflandi rolla nýkomin af fjalli. Ef einhver hefur vit fyrir henni má hún jarma að vild.

 

 

Update

 

This entry was posted in Þjóðveldi and tagged , , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.