Áríðandi vandi

Maður fyllist vissu þakklæti í garð meginfjölmiðla. Því þeir minna mann sífellt á að á Íslandi býr hamingjusamasta þjóð heims.

Smám saman venst maður því að vandi samtímans verður vandi fortíðar og allt mun þetta reddast. Enda gleymt í doða spunans. Það sem er efst á baugi dagsins í dag er gleymt í næstu viku.

Erfiðleikar þjóðarinnar hverfa smám saman í skuggann af froðu og þvættingi.

Manni er bent á viðeigandi skófatnað ráðamanna á einum stað, þegar þeir heilsa uppá valdamesta hreppstjóra heimsins.

Á öðrum stað er manni tjáð að sýslumenn hafi bara gert ein mistök síðustu árin en sumir meginmiðlar láta sterkt í það skína að hið opinbera starfi faglega og geri nær aldrei nein mistök.

Síðast en ekki síst er maður minntur á að á Íslandi er bara einn meiriháttar svikahrappur, og það ekkert smástórtækur! Skyldi einhver vita hvern átt er við? Ef ekki þá hefur spunaþáttaka meginmiðla heppnast. Sumir geta hugsanlega uppritað lista af svikahröppum bólunnar en þeir eru óðum að gleymast og fólk er orðið dofið.

Einn daginn munu meginmiðlar segja frá hver eigi vogunarbankana tvo. Einnig gætu þeir sagt frá aðferð Þjóðveldis til að tryggja þér fjárhagslegt frelsi og sjálfstæði. Eða er mig að dreyma? Er Þjóðveldi of langt út fyrir rammann?

Margir hafa sagt mér að Þjóðveldi sé of fáránlegt, of byltingarkennt og of langt frá samtímanum. Sumir láta nægja að spyrja „eigum við að fara þúsund ár aftur í tímann?“ Flestir halda að Endurreist Þjóðveldi sé einhver bullhugmynd frá skrýtnum manni sem vart sé mark á takandi. Hve margir sem slíkt hugsa skyldu vita eftirfarandi?

Aðferð Þjóðveldis til forna var þrepaskipt beint lýðræði.

Þetta var gert þannig að á hverju vori safnaðist alþýða manna saman á þingstað og hélt vorþing í héraði. Um allt land voru haldin héraðsþing á alls 39 stöðum, á hverju vori. Þó fólk í sveitum væri upptekið í sauðburði og vorverkum tók það sér tíma til að arka eða ríða til þings og ráða málum síns héraðs.

Á hverju vorþingi var valið hverjir yrðu fulltrúar síns héraðs á Allsherjarþingi sameinaðra héraðsþinga, eða Alþingi. Þó hvert hérað hefði sinn forystumann eða höfðinga sem nefndur var Goði var það álit manna að hann væri talsmaður héraðs en ekki höfðingi.

Aðal aðferðin til að tryggja auðmýkt goðans var sú að hver einasti þingmaður (frjáls maður) héraðs gat sagt sig úr lögum við sitt hérað eða sinn goða og í lög við annað hérað, ef hann kaus svo.

Þannig var tryggt að ef goðinn ætlaði sér um of í valdboðun þá missti hann fylgi sitt heima í héraði.

Þetta tryggði einnig að goðinn gætti hófsemi og virðingar þegar hann tók þátt í vali á þingreiðarmönnum – eða Alþingismönnum – sem riðu með honum til Alþingis að loknum vorverkum.

Þegar Sturlunga öldin stóð sem hæst þá börðust tvær fylkingar á banaspjótum hérlendis. Oft er nefnt að borgarastríðið, sem tók rúma fjóra áratugi, hefði staðið yfir vegna valdagræðgi Sturlunga. Þegar sturlunga öldin er skoðuð nánar kemur í ljós að annars vegar börðust Þjóðeldismenn og hins vegar Konungsmenn.

Noregskonungur hafði lengi stefnt að því – leynt og ljóst – að sölsa undir sig landið og sú fylking sem töldust Konugsmenn voru fjárstyrktir af Noregi. Þegar landsmönnum var ljóst að Þjóðveldið hefði ekki nægt fjármagn til að berjast gegn hinu erlenda fjármagni var tekin lýðræðisleg ákvörðun um að ganga í ríkjabandalag við Noreg.

Gamli sáttmáli var ríkja samningur fullvalda ríkis við annað. Ég veit ekki nema um sé að ræða eitt elsta ríkjabandalag heimssögunnar. Samninginn var kosið um á Alþingi, að landið gengist undir vernd Noregskonungs. Noregur yrði áfram sjálfstætt ríki undir Konungi en Ísland yrði áfram sjálfstætt lýðveldi og konungur yrði þjóðhöfðingi þess. Með samningnum voru konungi gefin viss skilyrði.

Þegar Gamli sáttmáli var undirritaður liðu enn tvö ár áður en hann tók gildi.

Ástæða þessa var sú að kynna þurfti sáttmálann heima á héraðsþingum landsins og tryggja honum fylgi þeirra. Menn samtímans hafa gleymt því að héröðin litu á sig sem sjálfstæð en Alþingi væri fyrst og fremst sameiningarháttur þeirra í eina heild, aðallega til að samræma landslög og skilgreina þjóðina.

Um það bil hálfri öld eftir samþykkt Gamla sáttmála breytti Noregskonungur um starfshætti gagnvart öðru ríkja sinna, Íslandi. Í stað þess að virða sjálfstæði héraðsþinga og Alþingis hóf hann að fjarstýra landinu með því að skipa eigin höfðingja yfir héruð og gefa þeim tilskipanavald.

Viðbrögð Íslenskra bænda voru – eins og hafði áður gerst undir Þjóveldi – byltingarkennd í heimssögunni. Þeir ákváðu að sniðganga Alþingi og beita Noregskonung borgaralegum mótþróa.

Rifjum nú upp hversu úrelt Þjóðveldið kann að vera:

  1. Frjáls héraðsþing um allt land, haldin árlega.
  2. Alþingi kosið árlega með beinu persónukjöri.
  3. Höfðingjar héraða (goðar) háðir vinsældum og þingsköpum (goða mátti gera útlæga ef þeir vanvirtu þinghelgi).
  4. Borgaralegur mótþrói nýttur til að knýja fram lýðræði.
  5. Trúfrelsi skilgreint með þjóðaratkvæðagreiðslu.
  6. Konur máttu vera goðar (prestar) áður en Kristin kirkja tók trúmálin yfir.
  7. Konur máttu skilja við menn sína (ef vissum skilyrðum var fullnægt).
  8. Eina ríkið í Evrópu sem í þrjár aldir (900 til 1200) leisti innanlandsdeilur með aðferum lýðræðis.

Ef framangreint er úrelt, þá er tímabært að við endurritum söguna og endurhönnum menntun þjóðar vorrar. Vissulega má finna Þjóðveldisöldinni margt til foráttu í stjórnarháttum en höfum í huga að sigurvegarinn hefur ritað söguna.

Sú saga sem við þekkjum í dag gæti því hafa verið rituð til að blekkja og deyfa hina Íslensku hugsun eins og hún gerðist best. Vel er hugsanlegt að valdastéttir, síðustu alda og líðandi aldar, kunni skil á því hvernig ala skuli upp lýðinn til að styrkja eigin völd.

Ef litið er á spunavélar meginmiðla og hversu mikill ótti ríkir á landinu við að rugga bátum umræðunnar er auðvelt að tengja vissa punkta.

Ljóst má vera að fólk sem hefur þvílík völd og auð að þurfa ekki að strita fyrir nauðþurftum hafa mikinn tíma til að grúska, læra og tengja punkta. Við getum ekki leyft okkur að laushnýta meðan þeir rammbinda.

Þess vegna er Endurreist Þjóðveldi ritað og skilgreint. Svo fólk sem er tilbúið að segja skilið við þref, egóisma og stakar lausnir, geti litið upp og skoðað hvernig hin Íslenska hugsun getur með einföldum hætti endurhannað – á gömlum meiði – þann grunn sem henni hentar bezt. Því þó sumt sé úrelt kann að vera að það virki betur.

 

 

This entry was posted in Þjóðveldi and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.