Satan er ljósengill upplýsingar hins dáleidda huga

Fyrst fékk ég efasemdir um Einstein þegar ég las mér til um Heisenberg og Bohr. Því þá mundi ég hvað Gunnar Dal hafði skrifað um Einstein  varðandi skammtakenninguna, og að hann hefði unnið með öðrum í fáein ár að hönnun þeirrar hugmyndar sem frumeindahraðlarnir (CERN er frægastur) vinna eftir.

img-coll-0262En þeir áttu að afsanna skammtakenninguna en reyndust sanna hana; en það er einhver fnykur af þeim spuna.

Svo sat í mér eftir lesturinn á Saga Tímans eftir Stephen Hawking einhver skuggamynd í huganum sem ég var ekki að ná að draga fram með morkunkaffinu.

Mér fannst sú bók verulega skemmtileg og óvitandi sýndi Hawking mér að alheimarnir eru líkara fractal, eða köggluðum spörðum í kindaþörmum, en því sem ég „á að trúa.“

Mér fannst einnig hugmyndin um „event horizon“ vera tær snilld og það má útfæra hana á ýmsa vegu – hugmyndalega séð – en það var samt þessi skuggi. Ég lét hann þó til hliðar í langan tíma. Hins vegar áttaði ég mig á því með árunum, sérstaklega varðandi risavöxnu hraðlana sem eiga að vinna með og hjúpa öröreindir að eitthvað var ekki að virka í jöfnunni.

Öröreindir eru svo smáar og torkennilegar samkvæmt skammtafræðinni að þær eru á mörkum hins veruleikaskynjaða heims sem við erum í. Kvarkapörin vita ekki sjálf hvort þau eru til, hver sé í réttsælissnúning eða í rangsælissnúning, eða yfirleitt að þau séu pör, fyrr en í þau er rýnt. Í skammta-eðlisfræði er sumsé eindin sem í er rýnt og rýnandinn orðin samverkandi.

Jiddu Krishnamurti nýtti sér þetta í heimspeki sinni án þess að segja frá því og ég dáðist að því þegar ég sá það, því ég hef ekki tekið eftir að neinn annar en ég hafi tjáð sig um að hann hafi gert það, og þegar ég sé eitthvað svona þá finnst mér ég vera spes. Eins og gaurinn sagði við dömuna í „As Good as it gets“ þá elskaði hann að sjá að hún væri frábærasta kona á jörðinni, því enginn annar sá hið dulda.

Sem er einmitt það skemmtilegasta við heimspekigrúsk, að finna helli í fjallinu, perlu í dýpinu, eða stjörnu á bak við stjörnu, sem bara þú sérð. Þegar aðrir sjá það líka, viltu helst komast í eitthvað nýtt.

Rétt eins og fyrstu landkönnuðirnir sem fór um ókunnar heimsálfur og héruð; að finna eitthvað sem fáir hafa fundið áður.

Þannig er það einmitt sem ég endaði – eftir alls kyns hugarranghala – með hugtakið Skammtalýðræði. Ég hef ritað dálítið um hugmyndina og gert myndskeið með forspjalli um það (á ensku) en rakst í vetur á myndskeið eftir John Keane stjórnmálaprófessor þar sem hann hafði greinilega fengið skylda hugmynd og notað sama hugtak.

Í ljós kemur á næstu öldum hvort hugtakið verður fullmótað af þriðja aðilanum og hann Einsteinaður. Því þegar einhver er tekinn og honum eignaður heiðurinn af einhverri góðri hugmynd og síðan gerður að Ækoni; þá er verið að fela eitthvað sem hinn upprunalegi hugmyndasmiður er of heiðarlegur til að fela.

Hér er nebblega málið sem smátt og smátt gerðist með skuggann. Í hitteðfyrra las ég „The Grand Design“ eftir Hawking (og samhöfund með flóknu nafni) og það er engu logið á kappann; hann er snillingu. Loksins byrjaði ég að sjá skuggann. Því bókin segir þér ekkert, heldur skautar yfir helling af kenningum. En þú gagnrýnir ekki Hawking!

Maðurinn er svo hrikalega virtur og dáður sem stærðfræðingur, enda er hann í sömu stöðu og Newton hélt á sínum tíma! Auk þess er ekki hægt annað en að dást að manni sem svo hetjulega hefur lifað með sjúkdómi í áratugi, þegar sami sjúkdómur drepur flesta á tveim árum. Hann er Ikon, sjáðu til.

Svo hér kemur næsta mynd á skuggann. Um sama leyti rakst ég á síðu um fyrri konu Einstein og hvaða þátt hún er talin eiga í þróðun afstæðiskenningarinnar.

Sú saga er rakin mjög vel, og tveir punktar bætast við hana. Í fyrsta lagi er mjög undarlegt hvernig Einstein kom fram við þessa konu og sameiginleg börn þeirra frá upphafi til enda. Hins vegar er áhugavert að vísindaelítan verndar Ækonímynd hans algjörlega fyrir nokkru spjóti úr þessari átt, en ekki með rökum heldur þögn.

Þögn er besti fnykur í heimi þegar skuggamynd skýrist í morgunþokunni.

Myndin tók þó á sig fullnaðarblæ nýverið að ég grúskaði eina kvöldstund í greinasafni Hawking á hans einkavefsíðu. Fann ég þar margt skemmtilegt til lestrar en skyndilega dró ský fyrir sólu og ég sá. Sex tíundu hlutar alls sem ég var að lesa voru hugmyndafantasíur rammaðar inn í vísindabúning. Hversu margt í veruleika okkar er þannig, án þess að við sjáum það?

Saga tímans, Afstæðiskenningin, skurðgoðadýrkun vísindanna; allt hrundi eins og spilaborg fyrir augunum á mér. Ekki það hvort við getum smíðað kjarnorkusprengju, þotuhreyfil eða konur riðið út um allt vegna pillunnar. Vísindin hafa áorkað miklu. Heldur skurðgoðadýrkun vísindaheimsins sem dáleiðir þig, ekki með rýni í aðferðina heldur höfundinn.

Í annan fótinn áttu að fara út fyrir rammann en ef þú gerir það ertu útlægur (ostracized). Nefna mætti mörg dæmi – en John Lovelock er mitt uppáhalds – auk þess sem þetta er bara greinastúfur.

Skurðgoðadýrkunin tilnefnir nebblega hverja þú átt að tilbiðja í átrúnaði þínum, hvernig þú átt að gera það, hverja þú átt að útiloka; og gefur prestum skurðgoðsins vald þitt. Þetta er þannig með öll trúarbrögð. Svo ég ætla að stinga nokkrum vúdúprjónum í dúkkuna.

Kanntu stærðfræði Evklíðs? Hefurðu rýnt í stærðfræði Pýthagórasar (annan en hornareikninginn)? Hefurðu lært Pascal stærðfræði eða geturðu notað Arkímedes nálganir? Vissir þú að Newton fann upp Calculus til að reikna feril himintungla?

Vissir þú til að mynda að fyrir nákvæmlega öld vissum við ekki að til voru vetrarbrautir fyrr en Edwin Hubble fór að reikna út ljósbrot? Vissir þú að allt sem er vitað um alheiminn utan við landamerki lofthjúpsins er reiknað út frá ljósbrotum og ljósrafssjám? Vissir þú að öll steingervingafræðin eins og hún leggur sig, og allar teikningarnar, eru 80% skáldað í eyðurnar?

Aðeins ef þú getur svarað þessum spurningum játandi, geturðu séð í gegnum og skilið útreikninga Frú Ænstæn, og skilið hugleiðingar Bohr og Heisenberg. Aðeins þannig geturðu skilið hvers vegna Herra Ænstæn gat varla prumpað eftir skilnaðinn; og þá blasir við þér hið helga vél skurðgoðsins.

Ekkert er eins og þú heldur, því það sem þú heldur er vökudraumur þess sem þú heldur að sé veruleiki, og þú þekkir ekki frumforsendur þeirra sem mötuðu þig á hvað þú ættir að halda; og menntunin þín var ekki hönnuð þannig að þú gætir rýnt í skuggann. Auk þess sem samfélagsmótunin hefur kennt þér að betra sé að vera dáleiddur í kirkjunni en liggja svangur innan um legsteinana úti.

Tökum snúning á heimsmynd, rett sison, svo þú sjáir betur hvað fyrir mér vakir. Því ég hef enga ástæðu, hvorki trúarlega né vísindalega, til að efast um vísindalegar aðferðir, getu, og þekkingu þeirra vísindamanna sem helga ævistarf sitt því að afla mannkyni nýrra sýna og staðfestinga á einhverju sem við teljum vera veruleika.

Við hin ólærðu megum þó einnig spyrja og satt að segja er ég með eina stóra spurningu á bak við eyrað. Hvort eyða vísindamenn meiri tíma í að efla tilgátur sínar eða vefengja? Þegar Stephen Hawking ákvað að reikna út hvort Stóri Hvellur væri líklegur, reyndi hann þá fyrst að reikna út hvort hann væri ólíklegur?

Skoðum til að mynda heimsmynd þeirra manna sem fæddust á Endurreisnartímanum og fæddu af sér nýja kynslóð vísindahyggju.

Spyrjum okkur sem snöggvast hvers vegna þeir fóru allir út fyrir heimsmynd Kaþólsku Kirkjunnar? Ekki nærri því allir fóru þeir út fyrir Guðstrú, og síst Newton, en með því að nota þessa menn gat engill safnaðarins í Sardis mátað engil safnaðarins í Efesus; skák en ekki ennþá mát.

Satan er ljósengill upplýsingar en Mikael arkarengill er ljósengill uppljómunar. Sá fyrrnefndi sameinar með sundrungu hugans en sá síðari með innri frið sálar. Englar safnaðanna sjö, sem allir eru lénsherrar höfðingja síns, berjast innbyrðis og síðan Satan var fangelsaður hefur barátta þeirra magnast í heiminum og sundruning verður æ ljósari dag frá degi, og að ætla sér að rýna í sundrunguna og ráða eitthvað vitrænt úr henni mun æra óstöðuga enn frekar.

Ef heimsmynd Efesusmanna væri enn hin flata jörð með sólina á hringferð í kringum sig og ef fólk tryði því enn að hinn Míþraski hálfguð hefði skapað veröldina á sex dögum; þá væru vísindi með verulega flotta útskýringu á því og mjög erfitt að ráða í það og þú yrðir jafn hliðsettur (marginalized) fyrir að gagnrýna þau vísindi og menn eru í dag fyrir að gagnrýna guðleysisvísindi samtímans.

Bæði þessi vísindi eru hluti hinna sjö meginstrauma og þú getur treyst því að til eru fimm aðrir vísindastraumar. Nefna mætti hugmyndina um hola jörð eða sýndarveruleikajörð og erum við þá komin með fjórar heimsmyndir. Hverjar myndu hinar þrjár þá vera, og hvernig myndi heimsmynd okkar vera í hverri þeirra og þær vísindafræðigreinar sem myndi sanna þær?

Rétt eins og ég nefndi fyrr; vísindamenn okkar heimsmyndar eru uppteknari við að sanna heimsmynd okkar en véfengja, rétt eins og vísindamenn Kaþólskunnar gerðu á sínum tíma og margir gera enn. Til er hafsjór af nútímaefni sem reynir að sanna hina flötu jörð, holrýmisjörð og sýndarveruleikajörð.

Það er alltaf eins innan heimsmyndar sem er trúað; meginstraumur hugans innan þeirrar heimsmyndar flýtur með en ekki á móti.

Þó eru alltaf mótvægisraddir, og þær eru fáránlegar á meðan þær eru fámennar. Svo hver er mín heimsmynd? Ég hef margsagt að ég trúi því sem vísindin segja um Atóm, DNA, Mikla Hvell, Kjarneðlisfræði og Skammtafræði, Erfðamengi, Þróunarkenningu og hvaðeina.

Ég hef hins vegar hvergi lýst því yfir að ég trúi þessum kenningum sem endanlegum sannleika, heldur að ég trúi að þessar kenningar séu besta módelið til að skoða veruleikann á þessum stað í tíma og rými sem við – eða vitund okkar – er stödd.

Í fyrra spurði ég tré – því tré er ein af elstu lifandi lífverum jarðar sem hægt er að tala við (vitund við vitund. Ég spurði „þið eruð elsta vera jarðar, erum við sköpuð eða þróuð?“ Tréð svaraði í óm þagnarinnar (vitund við vitund) „hvorugt, við erum innblásin (inspired).“ Þetta er lausleg þýðing, því ég spurði með enskum hugorðum.

Þessi heimsmynd er þriðja skýringin á tilurð efnisheims og mérvitanlega eru það bara trén og grasið sem hafa þessa sýn. Ég hugleiddi þetta mánuðum saman þar til mér vitraðist sú sýn að við erum að skapa alheiminn, þ.e. sálir okkar sjálfra.

Lengi hef ég haldið því fram svosem fram kemur í enskri bók minni „The Process of Positive Willpower“ og víðar, að egóhugurinn og líkaminn er aðeins myndbirting á broti þeirrar Sálar eða Sjálfs sem ég eða við erum. Að sálin sem skapar okkur sé eilífur kraftur, innrammaður í eðli Alheimisins, og að þessi sál sé sköpunarkraftur.

Ég er einnig á því að dáleiðslu og blekkingaheimur föllnu englanna snúist um að véla okkur frá þessari sýn og dáleiða okkur. Með dáleiðslu á ég við tvennt. Annars vegar að hugarmengi okkar og hugsanamynstur eru bundin í farvegi sem við kunnum ekki að efast um eða brjótast út úr. Hins vegar að blinda okkur á ægimagnaðan kraft okkar eigin sálar.

Satt að segja held ég að þetta síðara atriði sé Alheiminum nauðsyn, því sálnaþroski fólks er almennt í svo miklu myrkri, hatri og ótta, að væri hann leystur úr læðingi of hratt myndi sá dimmi kraftur verða svo magnaður að hinn þekkti Alheimur – sem er skynjaður (perceived) myndi farast í miklu stærri hvell en Mikla Hvell.

Eins og Inspector Morse sagði „I don’t assume, Lewis, I deduce.“ Nokkuð sem samtími okkar á enn ólært.

Því meira sem þú lítur í kringum þig í okkar sýndarmenntaða samtíma, því meira sérðu múginn sem dáleiddan skríl, uppfullan af sýndarhugmyndum um sjálfan sig, jafn stjarfdáleiddur í innkaupaferð eða við sjónvarpsskjáinn og múgurinn á torginu forðum þegar Giordano Bruno var brenndur.

 

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.