Náttúra frumspekinnar

Í heimspekigrúski og skyldum hugleiðingum leiði ég sjaldan hugann að því hvort sálin sé til eða ekki. Tilvist hennar og skilgreining er fjarlægt og illhjúpanlegt viðfangsefni sem skoppað hefur eitt eða fleiri skref undan krumlum heimspekinnar svo lengi sem viskuleit mannsins hefur verið iðkuð sem íþrótt.

Photo6140Varla er til sá heimspekingur sem ekki hefur hugleitt tilveru og hugsanlega skilgreiningu hennar – eða hjúpun – ef undan eru skildir efnishyggjuspekingar (Materialist philosophers) sem gefa sér að vitund sé blekking og að hugarferlar séu líffræðileg afleiðing.

Ef grannt er að gáð er álíka auðvelt að gefa sér að persónuleg vitund sé blekking eins og að gefa sér að sálin sé til.

Útgangspunkturinn eða frumforsendan stendur sitthvoru megin við sama hyldýpið.

Þegar heimspekilegar hugleiðingar eru annars vegar er það eitt af verkfærunum, að gefa sér ákveðnar forsendur (Priori) sem leiðsagnarpunkta á leið sinni frá huglægum viðfangsefnum frumspekinnar yfir að hlutlægum, nær ætíð er maður meðvitaður um það og hvort heldur það er í kyrrð innri samræðu eða í orðakasti með öðrum viskuboltum tekur maður það fram – maður gefur sér eitthvað.

Ávallt er vitað að hið gefna gæti krafist sérstakrar rýni.

Stundum þarf maður að gefa sér stærri punkta og þá sem frumforsendur (A priori) og einstaka sinnum mis fálmkennda niðurstöðu (Post priori) sem gefur manni stökkpall yfir á aðrar greiningar sem maður getur ekki höndlað nægjanlega nema hafa afmarkað niðurstöðuna – hvort sem hún er fálmkennd eða ekki.

Margir kannast vafalaust við að þekktir heimspekingar á borð við Aristoteles, Hegel, Kant og Descartés glímdu allir við spurninguna; Er hægt að hjúpa eða afmarka fyrirbærið sál og er það yfirhöfuð til? Einnig glímdu þessir spekingar grimmt við fyrirbærið rökfræði, með misgóðum árangri.

Þeir höfðu allir rangt fyrir sér varðandi rökfræði því þeir greindu aldrei á milli raka og raunsæis (Logic vs. Reason).

Margir hafa vafalaust kynnt sér eða heyrt um hugrenningar Heidegger um skyld fyrirbæri þegar hann var að loka ferli Hellenískrar heimspeki fyrir rúmri kynslóð eða svo. Þá er maður kominn að stóru spurningunni sem hann reyndi að glíma við með öguðum hætti, hvað er tími og hvað er fyrirbæri?

Allt ber þetta að sama brunni: Hvað er vitund, hvað er afmörkun á frumspekilegu hugtaki (Metaphysical concept), skiptir það máli eða hefur það vægi (Torque) í vitundarferli mannsins og uppbyggingu siðmenningar (Civilization), ennfremur hvað er vitund og síðast en ekki síst hvað eru rök?

Langar málsgreinar eru vanmetin íþrótt.

Að sumu leyti hefur Kant komist lengst með síðustu spurninguna, hvað eru rök, því hann glímdi grimmilega við fyrirbærið afmarkað frumspekihugtak (mín orðun) sem raða má upp í frumspekilegum hugarknetti (Sapient sphere) og tengja milli þessara hugtaka með rökfræðilegum hætti svo afmarkað sé, þ.e. að hlutbundnu stökin og rökleiður þeirra stæðust.

Þetta kann að hljóma flókið en hvað er ást, vinátta, lagahugsun, sáttmáli, virðing, umburðarlyndi, langlundargeð, hjúpun, skilningur, viska eða gildi? Allt eru þetta hugtök sem við vinnum með í daglegu lífi, öll höfum við okkar persónulega skilning á þeim og öll notum við gildismat þeirra eða vægi, hvort heldur vægið er tog eða vog.

Maður nokkur spurði mig fyrir þrem eða fjórum árum „hvað græði ég á heimspeki?“ Ég brosti til hans og svaraði „ekki neitt.“ Hann er með öll þessi hugtök á hreinu og hugarknöttur hans er skýr en ekki á sama hátt og hjá mér þar sem – eins og allir vita – flækjan er einfaldleikinn og hið einfalda flókið. Samt eigum við samfélag og met ég framlag þessa góða manns mikils.

Hans notkun á gildamenginu hefur verið mér lyftistöng á farvegi táradalsins oftar en honum kemur við.

Í síðustu viku átti ég samræður við frumspeking sem tamið hefur sér öguð og ábyrg vinnubrögð á óravíddum hugans. Eftir að samtalinu lauk og ég hugleiddi fáein orð sem sögð voru, skildi  ég að við höfðum í sameiningu sannað tilvist sálarinnar. Viðkomandi minnti mig á það í öðru samtali, nú nýverið, en ég hafði steingleymt því.

Samt hafði ég bókað skilgreiningu á sálinni annars staðar í orðræðu minni. Þó mér þyki sönnunin skipta máli, skiptir mig minna máli hvort hún sé auglýst eða útskýrð. Stundum dugar að hafa fundið forsenduna og þá má nota hana annarsstaðar í hugleiðingum.

Sigmund Freud og Carl Gustav Jung, sem eru frumkvöðlar nútíma sálfræði gerðu það að ævistarfi sínu að svara með vísindalegum aðferðum, hvað er sál og sé hún til hvernig má afmarka fyrirbærið? Á grundvelli vinnu þeirra beggja hefur sprottið fram frumskógur af kenningum, útskýringum, og umfram allt mismunandi tegundir aðferðafræði til að bæði heila fólk úr þjáningu og heilaþvo einstaklinga sem og hópa.

Mér finnst merkilegra að geta sannað að nútímavísindi eru ekki til og hafi þau verið til þá eru þau dáin. Jarðarför auglýst síðar. Sönnunin hins vegar, hún kostar, sé hún ekki augljós.

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.